Fyrirvari: Fyrstu drög. Textarnir hér að neðan verða uppfærðir næstu daga í takt við ný gögn og ábendingar. Við birtum dagsetningar breytinga og bætum inn tilvísunum og mælikvörðum eftir því sem vinnunni miðar áfram. Villur verða leiðréttar um leið og þær koma í ljós.
Verkáætlun September/október
• Stofnun samtaka og kynningarfundur.
• Opna grunnvef með helstu upplýsingum og tengiliðum.
• Samantekt staðreynda úr opinberum gögnum.
• Undirbúa og senda formlegar fyrirspurnir til ráðuneyta, Landlæknis og stofnana.
• Mótun og kynning samtakanna, dreifing kynningarefnis.
• Birta erindi og svör á vef, virkja samtal við notendur og fagfólk.
• Birta fyrstu hnitmiðuðu tillögur að úrbótum og hefja eftirfylgni.
Tilgangur og tilurð “Strax í dag“
Strax í dag er stofnað í minningu Bríetar Irmu Jónudóttir og Almars Yngva Garðarssonar.
Vinir okkar féllu frá allt of snemma. Við stöndum upp til að tryggja þjónustu sem grípur áður en allt fer úr skorðum.
Þetta snýst um líf, reisn og raunveruleg úrræði þegar fólki líður illa.
Af hverju núna
Of margir bíða. Of margir upplifa fordóma í kerfinu. Aðstandendur brenna út. Fagfólk vinnur við stöðugt álag.
Við látum ekki nægja að tala um vandann. Við krefjumst lausna sem hægt er að setja í gang strax í dag.
Gildi
Mannúð / Virðing / Gagnsæi / Ábyrgð / Gæði sem standast próf gagna
Markmið næstu tólf mánði
Bráð þjónusta án biðraða fyrir fólk í hættu
Aðgengi að sálfræðimeðferð óháð efnahag
Áfallateymi og símasamband allan sólarhringinn um land allt
Opinber birting reglulegra mælikvarða um biðtíma, úrræði og árangur
Skyldufræðsla gegn stimplun og um mannréttindi fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk
Skipulagt samráð við notendur og aðstandendur áður en stefna er mótuð
Auka fjármagn í þennan málaflokk
Hvað við ætlum að gera
Safna gögnum
Við byggjum gagnasafn með skýrum tilvísunum. Við birtum staðreyndir á mælaborði sem uppfærast reglulega.
Krefjast svara
Við sendum formlegar fyrirspurnir til ráðherra, landlæknis og forystu helstu stofnana. Við birtum svör og eftirfylgni opinberlega.
Setja fram lausnir
Við leggjum fram framkvæmanlegar, kostnaðarmetnar tillögur með mælikvörðum og tímaáætlun.
Vinna með fólki á vettvangi
Við styðjum aðstandendur og notendur þjónustu með leiðbeiningum, opnum samtali og hlaðvarpi.
Gagnsæi og fjármögnun
Við ætlum að hafna ríkisstyrkjum í upphafi. Opinbert fé á að fara í þjónustu við fólkið sem þarf hana.
Rekstur byggir á frjálsum framlögum, áskriftum, fjáröflunarviðburðum og sölu á varningi.
Allt fjármagn verður birt mánaðarlega í samantekt og í ársreikningi.
Fókus og virðing
Vettvangur Strax í dag snýst um geðheilbrigðismál. Önnur átakamál og flokkapólitík eru ekki tekin inn. Umræða skal vera málefnaleg og virðingarfull. Við gagnrýnum kerfið af festu en leitum samtals og samstarfs, ekki stríðs.
Ábyrgð og mælikvarðar
Við setjum fram skýra mælikvarða, tímasetningar og ábyrgðaraðila fyrir hverja aðgerð. Við birtum stöðuna mánaðarlega.
Ef niðurstöður dragast útskýrum við ástæðu og næstu skref.
Hvernig þú tekur þátt
Gerast félagi
Skrá sjálfboðaliðastarf eða faglegt framlag
Styðja með framlögum eða áskrift
Deila staðreyndum áfram
Halda samtalinu gangandi
Persónuvernd og virðing gagnvart frásögnum
Sögur eru birtar aðeins með skýru samþykki. Nöfn og viðkvæmar upplýsingar eru aldrei birt án leyfis. Þetta er skilyrði.
Sjá manneskjuna ekki tölur
Við metum ákvarðanir eftir áhrifum á raunverulegt fólk fremur en meðaltölum á blaði. Hver biðlisti er manneskja með líf, drauma og fjölskyldu. Við krefjumst þjónustu sem mætir fólki af virðingu og nærveru og látum sögur notenda og aðstandenda vega á móti tölum þegar stefna er mótuð.
Fjárfesting sem sparar
Fjárfesting í snemmtækri og samfelldri geðheilbrigðisþjónustu lækkar heildarkostnað samfélagsins. Hún dregur úr bráðum innlögnum, styttir dvöl á bráðamóttöku, fækka útköllum og dregur úr fangelsisdögum. Hún minnkar fjarvistir frá vinnu og skóla og léttir byrðar aðstandenda. Peningar færast frá seinkuðum og dýrum afleiðingum yfir í lausnir sem virka fyrr og kosta minna til lengri tíma.
Mannauður til að byrja með
Allir sem koma að verkefninu gefa vinnu sína á upphafsskeiði. Þegar umfang vex og þörf skapast fyrir stöðuga dagstjórn verður ráðið eitt starf til að halda utan um rekstur, gagnasöfnun og samhæfingu. Ráðningarferli verður gagnsætt, með skýrum hæfniskröfum og birtum starfslýsingum.
Okkar loforð
Við segjum sannleikann eins og gögnin sýna. Við stöndum með fólki.
Við leggjum fram lausnir sem hægt er að framkvæma.
Við gefumst ekki upp. Við viljum breytingar strax í dag.
Stofnandi og ábyrgðarmaður
Steindór Þórarinsson
Markaðsráðgjafi og Viðurkenndur markþjálfi
steindor@samson.is